Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 199 . mál.


Ed.

251. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um hreppstjóra, nr. 32 26. apríl 1965.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Hreppstjóri skal vera í hverju sveitarfélagi utan aðseturs sýslumanns, nema sýslumaður telji þess ekki þörf.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Þá er starf hreppstjóra losnar skal sýslumaður auglýsa það laust til umsóknar. Sýslumaður veitir stöðu hreppstjóra úr hópi umsækjenda að fenginni umsögn sveitarstjórnar.
    Hafi sýslumaður skrifstofu í sveitarfélagi utan aðseturs síns er honum heimilt án auglýsingar að skipa forstöðumann þeirrar skrifstofu jafnframt hreppstjóra í því sveitarfélagi. Er hreppstjórastarfið þá hluti af starfi forstöðumanns.

3. gr.

    Í stað „sýslunefnd“ í 4. gr. komi: sveitarstjórn.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1989.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, verða sýslunefndir lagðar niður frá næstu áramótum. Í lögum um hreppstjóra er ráð fyrir því gert að sýslumaður skipi hreppstjóra úr hópi þriggja manna sem sýslunefnd kýs. Þarf því að breyta þeirri skipan. Er lagt til að laus staða hreppstjóra verði auglýst og að sýslumaður skipi hreppstjóra að fenginni umsögn sveitarstjórnar.
    Þá er lagt til að sýslumanni verði heimilað að sameina starf hreppstjóra starfi forstöðumanns skrifstofu sem hann hefur utan aðseturs síns. Má búast
við að slíkum skrifstofum fjölgi í framtíðinni þannig að unnt verði að bæta þjónustu embættanna við almenning.
    Loks er þess að geta að það er lagt í mat sýslumanns hvort hreppstjóra er þörf í sveitarfélagi utan aðseturs sýslumannsembættis. Slíkt er óþarfi í því sveitarfélagi þar sem sýslumaður hefur aðsetur og sýslumaður getur metið hvort þess sé þörf í næsta nágrenni við embættisskrifstofu.